Kristján Örn að störfum í Bakú.

Ísland á þrjá skákstjóra á Ólympíuskákmótinu í Batumi. Einn þeirra er Kristján Örn Elíasson.

Hve gamall/gömul lærðir þú mannganginn?

Líklega um sjö til átta ára aldurinn

Þín helsta fyrirmynd í skák?

Pabbi, til að byrja með en svo kynntist ég taflmennsku hans betur! Að öllu gamni slepptu þá var Paul Morphy minn uppáhalds skákmaður – en ég hef því miður ekki náð að líkja vel eftir fyrirmynd minni.

Hvernig er þínum undirbúningi háttað fyrir Ólympíumótið nú?

Þar sem hlutverk mitt er skákstjórn þá undirbý ég mig aðallega með að því að lesa handbók skákstjóra og þá sérstaklega grunn- og keppnislög FIDE ásamt því að gera ýmsar æfingar á þeim skákklukkum sem notaðar verða á Ólympíuskákmótinu.

Hver er að þínu mati frægasti Georgíumaður fyrr og síðar?

Þekki fáa Georgíumenn en Zurab Azmaiparashvili er náttúrulega arfavitlaust svar!

Hversu oft hefur þú farið á Ólympíuskákmót?

Einu sinni, en ég fór á síðasta mót sem haldið var í Bakú í Aserbaídsjan árið 2016 – og hafði mjög gaman af.

Verður Liverpool loks enskur meistari næsta vor?

Nei, en það styttist í það eftir því sem tíminn líður.

Hverja telur þú líklegasta til sigurs á Ólympíuskákmótinu?

Sem skákdómari er ég að sjálfsögðu algjörlega hlutlægur – PASS!

Uppáhalds sjónvarpsþáttur?

Barnatíminn með Bryndísi Schram fyrir 40 árum!

Minnistæðasta augnablik á Ólympíuskákmóti

Dansatriði Hannesar Hlífars Stefánssonar var áhrifamikið!

Hverjum spáir þú sigri í forsetakosningum FIDE?

Ég spái engu en vona að slagorð FIDE – GENS UNA SUMUS – verði áfram í hávegum haft eftir kosningarnar.

Við hvaða haf liggur Batumi.

Svartahaf.

Minnistæðasta skák á Ólympíuskákmóti?

Það var viðureign GM Dragisa Blagojevic frá Svartfjallalandi og IM Jurcik Marian frá Slóvakíu í elleftu og síðustu umferð mótsins. Þeir voru báðir með hrók og biskup en Marian hafði tvö peð að auki. Blagojevic var kominn í mikið tímahrak – enda úrvinnslan erfið. Hann var í auknum mæli farinn að leika með örfáar sekúndur eftir á skákklukkunni en 30 sekúndna viðbótartími bættist við skákklukkuna eftir hvern leik. Loks kom að því að tími hans varð of knappur. Blagojevic hrökk við þegar hann sá að hann var að falla á tíma, greip hrók sinn en sleppti honum strax aftur þannig að hann skoppaði eftir skákborðinu, og leiftursnöggt sló hann á klukkuna. Klukkan hélst „uppi“ og sýndi hún eina sekúndu en taflmaðurinn lá á hliðinni á jaðri skákborðsins. Hrókur hafði verið snertur en engri færslu hafði verið lokið! 

Nú er það svo að í flestum tilfellum er veitt áminning, andstæðingurinn fær tvær mínútur í viðbótartíma, færslan er endurtekin og skákin heldur áfram. Í þessu tilfelli dæmdi ég tap á Blagojevic! Sumum kann að finnast dómurinn rangur, strangur eða umdeildur. Svartfellingar mótmæltu og svæðisdómari ætlaði í fyrstu að láta skákina halda áfram en tók svo undir skýringar mínar og staðfesti úrskurð minn. 

Í mínum huga var enginn vafi á því að Blagojevic hefði ekki náð að halda sér uppi á tíma ef hann hefði klárað færsluna, hvort heldur sem á löglegan eða ólöglegan hátt. Hann einfaldlega stöðvaði klukkuna í miklu óðagoti til að forðast fall! Ég mat það svo að hann hefði í raun „fallið“ og ætti ekki að hafa hag af brotinu með því að fá „annað tækifæri“ (með eina sekúndu á klukkunni) til að leika löglegum leik. Hefði hann haft meiri tíma á skákklukkunni, t.d. 3-4 sekúndur, hefði dæmið litið öðruvísi út – en þetta atvik hefði þá líklega ekki komið upp.

Staðan fyrir 75. Hrókurskoppaðieftirskákborðinu.

Með hverjum þremur (lífs eða liðnum) myndir þú vilja eiga kvöldmáltíð með og af hverju?

Við skulum skyggnast inn í hulinsheima listagyðjunnar: Ég sé fyrir mér kvöldmáltíð með Donald Trump og Vladimir Putin þar sem Scarlett Johansson mænir á mig girndaraugum!

- Auglýsing -