Friðriksmót Landsbankans – Íslandsmótið í hraðskák fór fram á Tornelo-netþjóninum í gær. Í fyrsta og vonandi síðasta skipti sem mótið fer ekki fram í útibúi bankans í Austurstræti því þó að mótið hafi tekist afar vel jafnast ekkert á við skák í raunheimum!

Að þessu sinni var tefld undankeppni á Chess.com sem allir gátu tekið þátt. Efstu menn úr henni fengu keppnisrétt í 16 manna úrslitakeppninni ásamt stigahæstu hraðskákmönnum landsins.

Gerð var krafa til þess að keppendur væru tengdir á Zoom í hljóði og mynd. Skákstjórar og skákskýrendur gætu því séð svipbrigði keppenda á meðan teflt var.  Og stundum fylgdu blótsyrði með í lok skáka!

Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson voru með mótið í beinni og eftir smá hökt í byrjun mótsins gengu þær afar vel og eiga þeir félagar mikið hrós skilið fyrir.

Hjörvar Steinn Grétarsson (2662) var í miklu stuði á mótinu. Hlaut 12½ vinning í 15 skákum. Hann var í forystu nánast allt mótið og hafði tryggt sér sigur þegar 2 umferðum var ólokið. Jóhann Hjartarson (2502) varð í öðru sæti og Davíð Kjartansson (2292), sem er einn allra snjallasti netskákmaður landsins, varð þriðji. Bragi Þorfinnsson (2306) var með 2½ vinning í hléi eftir átta umferðir og meðal neðstu manna. Hvað gerðist í hléinu er stór spurning en Bragi vann síðustu sjö skákirnar og endaði í fjórða sæti!

Mótstaflan

Á Tornelo-skákþjóninum er reynt að leikja meira eftir hefðbundinni skák en t.d. á Chess.com. Tornelo-menn kalla formið blendingsskák (hybrid-chess). Til dæmis er ekki hægt að leika fyrirfram (pre-move) og því þarf að passa tímann mun betur en t.d. á Chess.com. Músaleikni skiptir því mun minna máli.

Á næstum dögum fer fram EM í hraðskák á netskák á Tornelo. Mótið verður opið íslenskum skákmönnum með meira en 2300 skákstig. Íslandsmótið í atskák fer fram jafnframt fram á Tornelo. Undankeppnin fer fram 26. desember og útsláttarkeppni fram þann 27. desember.

Skákstjórar voru Omar Salama og Tómas Veigar Sigurðarson og héldu þeir utan um mótið af miklum myndarskap. Mótsstjóri var Gunnar Björnsson.

Skákir mótsins á PGN.

Útsendingin frá í gær