Íslandsmeistarar Víkingaklúbbsins. Mynd: KÖE

Víkingaklúbburinn vann öruggan sigur á Íslandsmóti skákfélaga sem lauk í dag. Svo fór að Víkingar fengu 5 vinningum meira en SSON sem endaði í öðru sæti. Huginn varð í þriðja sæti.

Skákdeild KR vann sigur í 2. deild eftir harða baráttu við Taflfélag Vestmannaeyja.

Vignir Vatnar vann Jóhann H. Ragnarsson og náði lokaáfanga alþjóðlegs meistaratitils. Mynd: JOF

Vignir Vatnar Stefánsson náði þriðja og síðasta áfanga sínum að alþjóðlegum meistaratitli og verður útnefndur sem slíkur á næstu mánuðum.

Frá viðureign Víkingaklúbbsins og Hugins. Hjörvar vann og fer yfir 2600 skákstigin!

Hjörvar Steinn Grétarsson náði einnig merkilegum áfanga en hann fer yfir 2600. Hann vann Jóhann Hjartarson í dag. Aðeins fjórði íslenski skákmaðurinn sem nær þeim merkilega áfanga. Hinir eru Friðrik Ólafsson, Jóhann Hjartarson og Hannes Hlífar Stefánsson.

Úrslit lokaumferðarinnar

Sigur Víkingaklúbbsins var sannfærandi og stór. Þeir töpuðu fyrir Hugin í lokaumferðinni en það kom ekki að sök. SSON vann 5-3 á b-sveit Víkinga þar sem Víkingar unnu á þremur neðstu borðunum. Fjölnir, TR og Breiðablik unnu í lokaumferðinni. Hin tvö fyrrnefndu taka sæti í úrvalsdeild ásamt SA.

Lokastaðan

Víkingaklúbburinn, SSON, Huginn, Fjölnir, Taflfélag Reykjavíkur og Skákfélag Akureyrar taka þátt í nýrri úrvalsdeildinni í haust.

Breiðablik, Taflfélag Garðabæjar, og b-sveitir Víkingaklúbbsins og Taflfélags Reykjavíkur taka þátt í 1. deildinni nýju í haust.

2. deild

2. deildar meistarar KR. Mynd: ÞB

Spennan var mikil í 2. deild og svo fór að Skákdeild KR hafði sigur eftir spennandi lokaumferð þar sem KR-ingar gerðu 3-3 jafntefli við Taflfélag Vestmannaeyja. Eyjamenn urðu aðrir og b-sveit Skákfélags Akureyrar í því þriðja.

Úrslit 7. umferðar 

Lokastaðan

KR, Taflfélag Vestmannaeyja, og b-sveitir Skákfélags Akureyrar og Hugins tefla í nýrri 1. deild (næstefstu deild) í haust. Líðin í 5.-8. sæti tefla í 2. deild í haust.

Nánar á Chess-Results.

Skákstjórar í síðari hlutanum voru Kristján Örn Elíasson, Jon Olav Fivelstad og Þórir Benediktsson. Tæknistjóri var Arnar Ingi Njarðarson.

Ný deildaskipting 

Ný deildaskipting tekur við í haust. Skipting í deildir verður sem hér segir.

Úrvalsdeild
Víkingaklúbburinn
SSON
Huginn
Fjölnir
TR-a
SA
1. deild
Breiðablik
TG
Víkingaklúbburinn-b
TR-b
KR
TV
SA-b
Huginn-b
2. deild
Fjölnir-b
Haukar
Hrókar alls fagnaðar
TG-b
Breiðablik-b
Austurland
Skákgengið
TR-c
3. deild
SA-öldungar
Víkingaklúbburinn-c
TR-d
Vinaskákfélagið
KR-b
SSON-b
TV-b
Huginn-c
4. deild
Önnur lið