Björn Ívar Karlsson að störfum á Reykjavíkurskákmóti.

Í dag kynnum við til leiks Björn Ívar Karlsson liðsstjóra kvennaliðsins á Ólympíuskákmótinu.

Hve gamall/gömul lærðir þú mannganginn?

Lærði mannganginn ungur en byrjaði seint að tefla af alvöru. Held að ég hafi verið 11 ára.

Þín helsta fyrirmynd í skák?

Ég hef alltaf litið mjög upp til allra þeirra sem hafa lagt á sig mikla vinnu og náð góðum árangri í kjölfarið. Það er enginn einn sem stendur upp úr í þeim hópi.

Hvernig er þínum undirbúningi háttað fyrir Ólympíumótið nú?

Þjálfun og allur almennur undirbúningur kvennaliðsins. Einnig hef ég umbreytt eigin mataræði og stundað skokk og fjallgöngur í sumar með það að markmiði að bæta eigið úthald og styrk. Ólympíuskákmót er langt og strembið og þar er nauðsynlegt að vera í góðu líkamlegu standi – jafnvel þó maður sé bara á hliðarlínunni.

Hver er að þínu mati frægasti Georgíumaður fyrr og síðar? Hér er Google og öll önnur hjálpartæki bönnuð!

Jósef Stalín.

Hversu oft hefur þú farið á Ólympíuskákmót?

Einu sinni áður. Bakú 2016.

Verður Liverpool loks enskur meistari næsta vor?

Nei því miður, kæri ritstjóri.

Hverja telur þú líklegasta til sigurs á Ólympíuskákmótinu?

Bandaríkin í opnum flokki, eins og síðast, og heimakonur í Georgíu í kvennaflokki.

Uppáhalds sjónvarpsþáttur?

Friends

Minnistæðasta augnablik á Ólympíuskákmóti.

Augnablikið þegar bugaður liðsstjóri enska kvennaliðsins Jonathan Speelman tók í höndina á mér og sagði ,,I wish I had a newspaper to hide behind“ eftir frábæran 2,5-1,5 sigur kvennaliðsins á mun stigahærra liði Englands í 3. umferð Ólympíumótsins í Bakú 2016. Ég varð þar með annar Eyjamaðurinn á mjög stuttum tíma til þess að stýra landsliði til sigurs gegn Englendingum.

Hverjum spáir þú sigri í forsetakosningum FIDE?

Dvorkovich

Við hvaða haf liggur Batumi. Hér er Google og öll önnur hjálpartæki bönnuð!

Við Svartahafið

Minnistæðasta skák á Ólympíuskákmóti?

Sigurskák Lenku með svörtu gegn Diana Baciu á 1. borði í viðureigninni gegn Moldavíu í 4. umferð Ólympíumótsins í Bakú. Eftir að hafa verið með tapað tafl náði Lenka að flækja málin fyrir andstæðingi sínum sem lenti í miklu tímahraki. Úrslitin réðust svo í brjáluðum klukkubarningi þar sem Lenka flúði með kónginn inn á miðborðið beint inn í skotlínu hvítu mannanna og var þá allt í einu komin með unnið tafl. Á sama tíma voru aðrar skákir líka að snúast okkur í vil. Viðureigninni gegn Moldavíu lauk svo með 2,5-1,5 sigri Íslands. Ég held að ég hafi aldrei áður verið eins stressaður og spenntur yfir skák á ævinni. Ef lesendur vilja upplifa vott af spennunni sem átti sér stað þarna þá má benda á pistil minn um þessa viðureign hér: https://www.skak.blog.is/blog/skak/entry/2179508/.

37…Kd6!! Öllum fráskákum með riddarnum er auðvitað svarað með 38…Dd2 mát, takk fyrir!

Með hverjum þremur (lífs eða liðnum) myndir þú vilja eiga kvöldmáltíð með og af hverju?

Flest kvöld borða ég með þremur uppáhalds manneskjunum mínum í heiminum, eiginkonu og tveimur dætrum, og vildi helst óska þess að fá að gera það áfram. Ef ritstjóri hins vegar telur þetta svar mitt of væmið þá skal ég í staðinn segja Paul Keres, Viktor Korchnoi og Mikhail Chigorin. Umræðuefnið verður Afhverju varð ég aldrei heimsmeistari? Við gætum reyndar þurft talsvert magn af víni með matnum til þess að komast í gegnum þá kvöldstund.

- Auglýsing -