Bragi teflir á sínu fimmta Evrópumóti í ár.

Evrópumót landsliða fer fram 24. október – 2. nóvember nk. í Batumi í Georgíu. Ísland sendir lið í opnum flokki. Lið Íslands skipa Hannes Hlífar Stefánsson, Bragi Þorfinnsson, Guðmundur Kjartansson, Helgi Áss Grétarsson og Dagur Ragnarsson. Dagana fram að keppni verða EM-fararnir kynntir til leiks en alls skipa íslensku sendisveitina átta manns.

Í dag kynnum við til leiks Braga Þorfinnsson, sem teflir á þriðja borði.

Nafn 

Bragi Þorfinnsson

Hlutverk 

3. borð

Hver kenndi þér að tefla?

Móðir mín, Aðalheiður Bragadóttir, kenndi mér mannganginn og síðan tók faðir minn við keflinu. Man t.d. eftir góðum stundum þegar ég var yngri og við rannsökuðum biðskákir saman. Það var mikill lærdómur í því.

Fischer, Kasparov eða Carlsen?

Karpov! Ég hef líka tekið þrisvar sinnum í spaðann á honum. Ég er tryggur aðdáandi bæði skákstíls hans og hárgreiðslu.

Verður Liverpool loks enskur meistari næsta vor?

Já.

Hvernig er þínum undirbúningi háttað fyrir EM landsliða?

Ég hef lagt mesta áherslu á að stúdera Petrovs-vörn og þá hef ég líka stundað köld böð. Annars er aðalatriðið að mæta afslappaður, en um leið einbeittur til leiks.

Nefndu önnur lönd auk Georgíu sem eiga landamæri að Svartahafinu? (bannað að nota Google!)

Úff, ég er ekki sleipur í landafræðinni. Við erum að tala um Tyrkland, Úkraína, Búlgaría, Rúmenía og e.tv.  Moldóva og Armenía .. ?  Ok, fæ skammir í hattinn frá Bjössa bróðir eftir þessa vitleysu.

Hversu oft hefur þú farið á EM landsliða?

Þetta verður í sjötta sinn. Fór fyrst 2001!

Minnisstæðasta atvik í miðri skák

Ég man það ekki.

Hver verður næsti áskorandi Magnúsar?

Ding Liren, er það nafn sem kemur fyrst upp í hugann, en það er ómögulegt að segja. Þessi kandítata-mót virðast lúta sínum eigin lögmálum.

Hver eru þín markmið á mótinu?

Einfaldlega að gefa allt í hverja skák fyrir sig. Það er líka markmið í sjálfu sér að njóta þess að tefla, og leyfa sér að vera stoltur yfir því að tefla fyrir Íslands hönd.

Eitthvað að lokum?

Gens Una Gott að vera búinn að svara þessum spurningum!

- Auglýsing -