Sigurlaug að tafli á Reykjavíkurskákmótinu. Mynd: Hrafn Jökulsson.

Ólympíufararnir 2018 eru 17 talsins. Tíu keppendur, 2 liðsstjórar, fararstjóri, FIDE-fulltrúi og 3 skákstjórar. Dagana 6.-22. september gerum við Ólympíuförunum skil en allir fengu þeir sama spurningarlistann. Mótið verður sett 23. september og taflmennskan hefst degi síðar.. Við hefjum leik með Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur úr kvennaliðinu.

Hve gamall/gömul lærðir þú mannganginn?

Pabbi minn kenndi mér að tefla þegar ég var 6 ára. 

Þín helsta fyrirmynd í skák?

Á enga sérstaka fyrirmynd í skák, því ég er enn að læra! Í gamla daga var ég einstaklega hrifin af bókinni hans Rudolf Spielmann (1883-1942): The Art of Sacrifice in Chess, sem ég las reyndar á frönsku: L’art du sacrifice aux échecs. Hafði snemma gaman af fórnarskákum, en núna er ég upptekin af því að kunna endatöflin betur. Hins vegar vil ég nefna Birnu Norðdahl og Guðlaugu Þorsteinsdóttur sem mínar fyrirmyndir hvað varðar, að ég skuli enn vera að tefla á skákmótum!

Hvernig er þínum undirbúningi háttað fyrir Ólympíumótið nú?

Sæki æfingar hjá Birni Ívari með landsliðskonunum. Tefldi á Evrópumeistaramóti öldunga í kvennaflokki 50+ í Drammen í Noregi í byrjun ágúst. Tefldi á skákmótum fyrri hluta árs og hef mikið verið að stúdera í sumar. 

Hver er að þínu mati frægasti Georgíumaður fyrr og síðar? Hér er Google og öll önnur hjálpartæki bönnuð!

Að mínu mati er það Nona Gaprindashvili, sem ég var svo heppin að sjá tefla í Drammen fyrr í mánuðinum. 

Hversu oft hefur þú farið á Ólympíuskákmót?

Hef farið 6 sinnum (1980, 1982, 1984, 2006, 2008, 2010). 

Verður Liverpool loks enskur meistari næsta vor?

Hef ekki hugmynd! Kannski – kannski ekki!

Hverja telur þú líklegasta til sigurs á Ólympíuskákmótinu?

Kínverjar og vonandi taka Georgíukonurnar þetta á heimavelli. 

Uppáhalds sjónvarpsþáttur?

From the Earth to the Moon með Tom Hanks sem kynni. 

Minnistæðasta augnablik á Ólympíuskákmóti.

Mörg augnablikin minnisstæð að sjálfsögðu! Eitt frekar „tragikomískt“ augnablik í Þessalóníku 1984. Aðstæður: Við Gulla inni á hótelherbergi og það er bankað á hurðina og kallað: „Stelpur, þið fáið Japan!“ Við tilbaka: „Hvaða lit höfum við á 1. borði?“. Liðsstjórinn svarar: „Þurfið þið nokkuð að vita það?“. Við unnum Japan 2:1 🙂  

Hverjum spáir þú sigri í forsetakosningum FIDE?

Grikkinn tekur þetta. 

Við hvaða haf liggur Batumi. Hér er Google og öll önnur hjálpartæki bönnuð!

Svartahaf. 

Minnistæðasta skák á Ólympíuskákmóti?

Nokkar minnisstæðar. Í 8. umferð í Þessalóniku 1984 tefldi ég 24 leikja sigurskák sem birtist í þýskri bók um Ólympíumótið. 

Ég var með hvítt (þá með 1805 stig) og andstæðingur minn var frá Grikklandi, Petraki (1910 stig). 1. e4 c6 2. d4 d5 3. exd5 cxd5 4. Bd3 Rc6 5. c3 g6 6. Rf3 Rh6 7. Bf4 Bg7 8. Dd2 Rf5 9. Ra3 a6 10. Rc2 0-0 11. 0-0-0 b5 12. h4 Db6 13. h5 b4 14. cxb4 Rcxd4 15. Rfxd4 Rxd4 16. hxg6 hxg6 17. Bh6 f5 18. Bxg7 Kxg7 19. Dh6 Kf7 20. Dh7 Ke8 21. Rxd4 Bd7 22. Dg7 Dxb4 23. Dxg6 Kd8 24. Re6 gefið.  

Með hverjum þremur (lífs eða liðnum) myndir þú vilja eiga kvöldmáltíð með og af hverju?

Tja, kýs að svara þessu skáktengt! Það væri meiri háttar að geta setið að snæðingi með þremur konum sem voru miklir brautryðjendur: Vera Menchik (1906-1944), fyrsta heimsmeistara kvenna í skák, Birnu Norðdahl (1919-2004), sem á heiðurinn að því að Ísland sendi kvennalið á Ólympíuskákmót í fyrsta skipti fyrir 40 árum (1978) og svo Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands. Viss um að það yrðu skemmtilegar umræður og mikið hlegið!

- Auglýsing -