Helgi Áss að tafli á Krít. Mynd: Facebook-síða mótsins.

Evrópumót landsliða fer fram 24. október – 2. nóvember nk. í Batumi í Georgíu. Ísland sendir lið í opnum flokki. Lið Íslands skipa Hannes Hlífar Stefánsson, Bragi Þorfinnsson, Guðmundur Kjartansson, Helgi Áss Grétarsson og Dagur Ragnarsson. Dagana fram að keppni verða EM-fararnir kynntir til leiks en alls skipa íslensku sendisveitina átta manns.

Í dag kynnum við til leiks Helga Áss Grétarsson, sem teflir á fjórða borði.

Nafn 

Helgi Áss Grétarsson

Hlutverk 

Liðsmaður, á fjórða borði.

Hver kenndi þér að tefla?

Amma mín, Guðfríður Lilja Benediktsdóttir.

Fischer, Kasparov eða Carlsen?

Carlsen.

Verður Liverpool loks enskur meistari næsta vor?

Já, það er skrifað í skýin.

Hvernig er þínum undirbúningi háttað fyrir EM landsliða?

Frá 5. ágúst til 19. september sl. tefldi ég á fimm alþjóðlegum mótum í röð í þrem löndum, Lettlandi, Úkraínu og Grikklandi. Fyrir utan að ég tefldi 45 kappskákir á þessu tæpa tveggja mánaða tímabili þá tefldi ég margar hraðskákir ásamt því að taka þátt í sterku atskákmóti í Lviv í Úkraínu. Þessi mikla taflmennska á svona skömmum tíma gerir að verkum að maður verður að gæta sín á að fá ekki leiða á skák. Þar sem þátttakan á EM-landsliða er upphafið á nýrri tveggja mánaða skáktörn hjá mér hef ég reynt að gæta þess á undanförnum þrem vikum að taka því tiltölulega rólega með tilliti til skákundirbúnings. Ég lít svo á að veigamesta atriðið í undirbúningnum hefur verið fólgið í því að dreifa huganum og sinna ýmsu öðru en skák. Eigi að síður hef ég síðan ég kom til landsins fyrir um þrem vikum unnið nokkur hraðskákmót ásamt því að hafa teflt fimm kappskákir á Íslandsmóti skákfélaga. Æfingar hjá landsliðinu hafa einnig verið haldnar, sem ég vona að komi að góðum notum á EM.

Nefndu önnur lönd auk Georgíu sem eiga landamæri að Svartahafinu? (bannað að nota Google!)

Rúmenía, Rússland, Búlgaría og Úkraína (gúglaði svarið, að sjálfsögðu!). [Aths. ritstj. Helgi Áss og/eða Google hefur yfirsést að Tyrkland liggur líka að Svartahafi].

Hversu oft hefur þú farið á EM landsliða?

Aldrei, þetta verður í fyrsta skipti sem ég tek þátt.

Minnisstæðasta atvik í miðri skák

Það var á Ólympíuskákmótinu í Yerevan í Armeníu árið 1996. Andstæðingur minn, georgískur alþjóðlegur meistari, reyndi að trufla mig á meðan skákinni stóð með því að standa fyrir aftan stól sinn og rugga honum á meðan ég átti leik. Gunnar Eyjólfsson, leikari, var þá sérlegur andlegur leiðtogi íslenska liðsins og eftir að ég upplýsti hann um hegðun andstæðingsins, greip hann til þess ráðs að standa samsíða Georgíumanninum á meðan ég átti leik og stara á hann. Þetta var hægt án þess að mikið bæri á þar eð ég tefldi á síðasta borðinu og Gunnar gat staðið við spjaldið sem upplýsti áhorfendur um hverjir væru að tefla. Það var gott að finnan þennan stuðning Gunnars og orkan hans var ávallt það mikil að maður gat skynjað hana. Andstæðingur minn gafst fljótlega upp á því að trufla mig og skákinni lyktaði vel, ég vann eftir að hafa teflt nokkuð vel.

Hver verður næsti áskorandi Magnúsar?

Fabiano Caruana.

Hver eru þín markmið á mótinu?

Að tefla áhugaverða skákir og hala inn marga vinninga fyrir liðið.

Eitthvað að lokum?

Ég hlakka til að tefla fyrir hönd Íslands og hyggst leggja mig allan fram fyrir liðið.

- Auglýsing -