Íslandsmót barnaskólasveita, sem fram fór 23. maí, var fyrsta alvörumótið í heiminum sem fram fór eftir kófið. Þessi mynd fór um allan skákheim á samfélagsmiðlum.

Eftir smá hlé getur skákæskulýðsstarf hafist að nýju á morgun! Starf fullorðna (fædda 2004 og fyrr) liggur niðri til 1. desember hið minnsta.

Það eru ákveðnar fjöldatakmarkanir í minnisblaði Sóttvarnarlæknis sem félög verða að hafa í huga í sínu æskulýðsstarfi, þ.e. að hámarki 25 í hóp þegar um er að ræða eldri nemendur (5.-10. bekk). Í æskulýðsstarfi yngri krakka (leiksskólabörn og 1-4. bekkur) geta verið 50 í hóp.

Skáksamband Íslands ákvað á fundi sínum í gær að Íslandsmót ungmenna fari fram laugardaginn 28. nóvember og Íslandsmót barna- og unglingasveita 5. desember. Nánar verður sagt frá því mótshaldi í dag en að sjálfögðu verður farið eftir þeim fjöldatakmörkunum sem í gildi eru.

Nánar um reglur sóttvarnaryfirvalda

Ákvæðið sem snýr að æskulýðsstarfi

Æfingar, íþróttastarf, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verður heimilt jafnt inni og úti. Til að slíkt starf geti farið fram eru engar takmarkanir settar varðandi blöndun milli hópa. Fjöldamörk í hverju rými fara eftir reglugerð um takmarkanir á skólastarfi. Leikskólabörn og börn í 1.–4. bekk grunnskóla mega vera 50 saman að hámarki en nemendur í 5.–10. bekk að hámarki 25 saman.