Guðmundur Kjartansson í Hörpu. Mynd: Hrafn Jökulsson.

Í gær hófum við kynningu á Ólympíuförunum. Í dag höldum við áfram og kynnum til leiks Guðmund Kjartansson sem teflir með íslenska liðinu í opnum flokki.

Hve gamall/gömul lærðir þú mannganginn?

6 ára

Þín helsta fyrirmynd í skák?

Helgi Ólafsson

Hvernig er þínum undirbúningi háttað fyrir Ólympíumótið nú?

Fyrir mér er mikilvægast að vera með byrjanir á hreinu og vera almennt í góðu skákformi og með rétt hugarfar, losa sig við allar truflanir og áreiti svo maður geti einbeitt sér 100% að mótinu. Ég er nýbúinn að taka þátt í tveimur sterkum mótum sem er ágætis upphitun fyrir þetta verkefni. Svo er líka mikilvægt að ná góðri hvíld og vinna upp þrek með því að synda eða fara í ræktina og svo reynir maður að halda mataræðinu í lagi.

Hver er að þínu mati frægasti Georgíumaður fyrr og síðar? Hér er Google og öll önnur hjálpartæki bönnuð!

John Travoltashvili

Hversu oft hefur þú farið á Ólympíuskákmót?

Þetta verður mitt þriðja Ólympíumót

Verður Liverpool loks enskur meistari næsta vor?

Þeir spila hraðan og skemmtilegan bolta og eru með rosalegt lið svo ég býst við því að þeir verði meistarar loksins. Ég var staddur á bar í Riga með Helga Áss þegar þeir mættu West Ham í fyrsta leik tímabilsins. Helgi fagnaði svo svakalega eftir fyrsta markið að allir á barnum fóru að horfa á okkur. Ég varð frekar vandræðalegur en Helgi hló bara, eftir þetta atvik var ég ekki viss hvort ég vildi sjá Liverpool skora fleiri mörk þrátt fyrir að halda með þeim. En auðvitað bættu þeir þremur mörkum við og unnu 4-0 sigur, svo ég fékk að upplifa þetta skemmtilega augnablik fjórum sinnum! Ég legg til að einhver taki vídjó af Helga þegar Liverpool tryggir sér titilinn á næsta ári.

Hverja telur þú líklegasta til sigurs á Ólympíuskákmótinu?

Ætli ég haldi ekki með Úkraínu, veit ekki hvort þeir teljist sigurstranglegastir en ég ætla að veðja á þá. Bandaríkjamenn eru með svakalegt lið svo það væri auðvelt að spá þeim sigri.

Uppáhalds sjónvarpsþáttur?

South Park

Minnistæðasta augnablik á Ólympíuskákmóti.

Það er mikil upplifun og skemmtilegt að taka þátt í svona stórum og mögnuðum viðburði svo maður er ekkert að festa sig við eitthvað eitt augnablik eða atvik.  

Hverjum spáir þú sigri í forsetakosningum FIDE?

Ætli það verði ekki þarna Rússinn sem ég man ekki hvað heitir

Við hvaða haf liggur Batumi. Hér er Google og öll önnur hjálpartæki bönnuð!

Svartahafið

Minnistæðasta skák á Ólympíuskákmóti?

Ég átti ágæta sigurskák gegn Portugölum á síðasta Ólympímóti í viðureign sem við unnum.

Með hverjum þremur (lífs eða liðnum) myndir þú vilja eiga kvöldmáltíð með og af hverju?

Bara einhverjum hressum og skemmtilegum, Einstein, Chaplin og Mozart t.d.

- Auglýsing -