Ingibjörg Edda Birgisdóttir er einn þriggja íslenskra skákdómara.

Við höldum áfram með kynningu á Ólympíuförunum. Í dag kynnum við til leiks Ingibjörgu Eddu Birgisdóttur sem er ein þriggja íslenskra skákdómara á mótinu.

Hve gamall/gömul lærðir þú mannganginn?

5-6 ára

Þín helsta fyrirmynd í skák?

Bobby Fischer er minn maður.  

Hvernig er þínum undirbúningi háttað fyrir Ólympíumótið nú?

Hef verið dómari á mörgum stórmótum á Islandi síðustu ár. Það heldur manni á tánum. Fer reglulega yfir nýjustu reglur og fylgist með breytingum á þeim. Næst á dagskrá er að athuga hvort Nocco fáist í Georgíu. Ef ekki þarf ég að gera viðeigandi ráðstafanir með það. 

Hver er að þínu mati frægasti Georgíumaður fyrr og síðar? Hér er Google og öll önnur hjálpartæki bönnuð!

Þekki ekki marga Georgíumenn og hvað þá fræga. Sá fyrsti sem mér dettur í hug er stórmeistarinn Jobava Baadur sem er stórskemmtilegur karakter sem teflt hefur á Reykjavik Open og lífgar mikið uppá allt og alla í kringum sig.

Hversu oft hefur þú farið á Ólympíuskákmót?

Þetta er í þriðja skiptið sem ég fer.

Verður Liverpool loks enskur meistari næsta vor?

Eg hef svarað þessari spurningu játandi síðan 1986 þegar ég lærði að tala. En hef hins vegar sjaldan eða aldrei trúað þessu svari mínu jafn mikið eins og akkúrat núna.

Hverja telur þú líklegasta til sigurs á Ólympíuskákmótinu?

Eg hef ákveðið að halda í smá fagmennsku og svara því ekki þessari spurningu opinberlega

Uppáhalds sjónvarpsþáttur?

Er búin að sjá alla Dr Phil þætti síðan 2005. Ætli það geti ekki talist sem uppáhalds. 

Minnistæðasta augnablik á Ólympíuskákmóti.

Eg á margar mjög góðar minningar frá Ólympíumótunum. Ein frá Bakú þegar öryggisgæslan var svo mikil. Við fengum lögreglufylgd í Kristalhöllina á hverjum degi. Þegar þangað var komið voru allar eigur okkar teknar í geymslu máttum ekki einu sinni fara með eigin penna inní skáksal. Einnig var forsetanum meinaður aðgangur í eitt skiptið. Það fannst okkur svolítið fyndið. Engum treyst hvorki dómurum né forsetum 🙂 

Hverjum spáir þú sigri í forsetakosningum FIDE?

Ef ég ætti að veðja á þetta myndi ég segja Dvorkovich. Það er samt ekkert endilega mín skoðun.

Við hvaða haf liggur Batumi. Hér er Google og öll önnur hjálpartæki bönnuð!

Það liggur við Svartahaf.

Minnistæðasta skák á Ólympíuskákmóti?

Vitna í svar mitt við þessari spurningu frá 2016. 

Þar sem ég er dómari má ég ekki fylgjast með því sem er að gerast í skákunum eða hafa skoðanir á því sem gerist í þeim. Ef ég myndi óvart detta inní skákirnar myndi ég aldrei segja frá því. 🙂 

Með hverjum þremur (lífs eða liðnum) myndir þú vilja eiga kvöldmáltíð með og af hverju?

Myndi bjóða Klopp, Michael Bolton og Mourinho í hangikjet og uppstúf hingað í Breiðholtið.

Hlusta á Klopp tala um hvernig Liverpool ætlar að sigra alla bikara á þessu tímabili, horfa á svipinn á Mourinho á meðan með undirspili frá M Bolton.

- Auglýsing -