Benedikt Briem (1864) og Vignir Vatnar Stefánsson (2314) komu eftir og jafnir í mark á Unglingameistaramóti Íslands (u22) og Meistaramóti Skákskóla Íslands sem lauk í gær. Mótið bar ártalið 2020 þar sem ekki náðist á halda mótið í fyrra vegna Covid-19. Þetta er í fyrsta skitpi sem þessi tvö mót eru sameinuð.

Spennan á mótinu var mikil. Gauti Páll Jónsson (2081) var efstur fyrir lokaumferðina með 5½ vinning. Vignir Vatnar, Benedikt og Jóhann Arnar Finnsson (1736) komu humátt á eftir með hálfum vinningi minna. Svo fór að Vignir náði að nýta betri stöðu til vinnings gegn Gautanum og Benedikt lagði Jóhann Arnar velli.

Þeir félagarnir úr Breiðbliki og áður Hörðuvallaskóla urðu því efstir og jafnir og munu tefla atskákeinvígi um meistaratitlana tvo á u25-æfingu á miðvikudagskvöldið. Gauti Páll varð þriðji.

Jóhann Arnar fékk verðlaun fyrir bestan árangur þeirra sem hafa minna en 2000 skákstig og Kristján Dagur Jónsson fékk sömu verðlaun fyrir þá sem hafa minna en 1800 skákstig. Allir keppendur voru leystir út með sögu Reykjavíkurskákmótsins eftir Helga Ólafsson.

Mótshaldið var samvinnuverki Skáksambandsins og Skákskólans. Um mótsstjórn sáu Helgi og Gunnar Björnsson. Ingibjörg Edda Birgisdóttir var skákstjóri. Stórmeistarnir og kennarar Skákskólans, Bragi Þorfinnsson, Hannes Hlífar Stefánsson og Hjörvar Steinn Grétarsson létu sig ekki vanta og fylgdust með taflmennsku nemenda Skákskólans. Omar Salama hélt utan um beinar útsendingar.
Teflt var við frábærar aðstæður í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6. Það er ekki útilokað sá keppnisstaður verði notaður undir frekara mótshald í framtíðinni!